10.4.2013 | 11:01
Katastrófan í gær breytti landslaginu
Umræðuþátturinn á Rúv í gær markaði þáttaskil. Áhrifa hans gætir þó ekki í þeim könnunum sem eru að birtast núna enda framkvæmdar fyrir þáttinn. Köturnar tvær frá ríkisstjórnarflokkunum gjörsamlega brilleruðu, sérstaklega Katrín Júlíusdóttir sem tók bæði Sigmund og Bjarna svo eftirminnilega í bakaríið að annað eins hefur varla sést. Hún benti nefnilega réttilega á það að kosningaloforð þeirra standa og falla með lögum sem ríkisstjórnin setti sem læsti fé "hrægammasjóðanna" inni en sjálfstæðisflokkurinn var á móti þessu og framsókn sat hjá! Nú ætla þessir flokkar semsagt, sérstaklega framsókn, að nota þessa peninga -sem ríkisstjórnin bjó til- til að framkalla gullregn yfir heimili landsins og það án þess að peningarnir séu raunverulega í hendi því það gæti enn tekið mörg ár að sækja þetta fé.
Það var ekki nema von að Sigmundur Davíð væri með óvenjustóra bauga í gær, menn hafa misst svefn af minna tilefnin en að þurfa að redda 270 milljörðum.
Nú loksins er verið að afhjúpa loforðaþvælu framsóknar en einhvernveginn efast ég um að það fylgi fari aftur til Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið vægast sagt mjög ótrúverðugur í þessari kosningabaráttu. Það sást úr flugvél í gær að Bjarni Ben hefur misst allt sjálfstraust enda kennir náhirðin honum eflaust um fylgishrunið sem er algjörlega einstakt í sögu flokksins, sérstaklega í ljósi þess að ekkert klofningsframboð er að reita af honum fylgið.
Ég hef þá trú að núna þegar menn átta sig á að loforðaflaumur og óábyrgar yfirlýsingar ganga ekki upp þá fara menn að sjá stöðuna eins og hún raunverulega er. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur gert ekkert minna en kraftaverk miðað við aðstæðurnar sem hún tók við í. Hvarvetna utan landsteinanna er okkur hrósað fyrir ótrúlegan árangur eftir hrunið en niðurrifsöflin eru því miður sterk hér á landi. Það er alkunna að í kreppuástandi blómstra lýðskrumarar og á þeim hefur sko ekki verið neinn skortur hér á landi síðustu misserin.
Það besta sem getur hent þjóðina núna er að núverandi ríkisstjórn fái umboð til að halda starfi sínu áfram og koma okkur endanlega uppúr kreppunni. Skapa hér raunverulega norrænt velferðarríki þar sem jöfnuður og réttlæti er í fyrirrúmi en ekki últrakapitalismi sem hyglar hinum ríku á kostnað almennings. Þannig þjóðfélag viljum við ekki.
Framsókn eykur forskotið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.